Fara í efni

Græn lán

Lánasjóður sveitarfélaga býður sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu upp á græn lán til umhverfisvænna verkefna. Tilgangurinn er að gera sveitarfélögum kleift að leggja sitt af mörkum til umhverfisverndar og sporna gegn loftslagsbreytingum. Leiðin að markmiðinu er að hrinda af stað verkefnum sem hafa umhverfisbætandi áhrif og þau framkvæmd á þann hátt sem stuðlar að umhverfisvernd.

Verkefnin þurfa að uppfylla ákveðnar formkröfur sem settar eru fram í grænni umgjörð sjóðsins og skila þarf inn fylgigögnum með útreikningum. Verkefnin þurfa að vera vel útlistuð, ákveðnar greiningar þarf að framkvæmda og útreikningar á umhverfisábata þurfa að liggja fyrir. Lánasjóðurinn ásamt sérfræðingi í umhverfismálum hafa tekið saman helstu umhverfismælikvarða sem líta skal til í tilteknum verkefnum. Græna umgjörðin byggist á umhverfisstefnu sjóðsins. 

Lánastjóri og framkvæmdastjóri fara yfir upplýsingarnar og fylgigögn og skera úr um hvort verkefnin uppfylli græna umgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga. Verkefnin þurfa að hafa mælanleg jákvæð umhverfisáhrif. Sérfræðingur í umhverfismálum er kallaður til við yfirferð á gögnum þegar þess gerist þörf. Sveitarfélög þurfa í framhaldinu að upplýsa Lánasjóðinn reglulega um þá mælikvarða sem tilheyra verkefninu og þann umhverfisábata sem verður til.

Þá gefur Lánasjóðurinn árlega út framvinduskýrslu grænna skuldabréfa samhliða ársreikningi þar sem fjárfestar fá viðeigandi upplýsingar, m.a. yfirlit yfir fjármögnuð græn verkefni og jákvæð umhverfisáhrif þeirra. 

Dæmi um umhverfisbætandi verkefni

  • Umhverfisvænar samgöngur
  • Vistvænar og vottaðar byggingar
  • Endurnýjun byggingar með aukinni orkunýtni
  • Jarðvarmavirkjani
  • Vatnsaflsvirkjanir
  • Vind- og sólarorkustöðvar
  • Fráveitur og hreinsistöðvar

Græn umgjörð Lánasjóðsins 

Umgjörð sjóðsins byggir á alþjóðlegum viðmiðum „Green Bond Principles“ sem International Capital Market Association (ICMA) hefur sett saman og byggir á eftirfarandi stoðum:

  • Ráðstöfun fjármuna
  • Ferli um mat og val á verkefnum
  • Stýringu fjármuna
  • Upplýsingagjöf

Umgjörðina má skoða hérna:

Græn umgjörð LS hlaut vottun frá Sustainalytics sem er leiðandi viðurkenndur vottunaraðili. Samkvæmt vottuninni er umgjörð Lánasjóðsins trúverðug, áhrifarík, gagnsæ og í samræmi við ofangreind viðmið ICMA: 

Umhverfisstefna Lánasjóðsins