Lánasjóður sveitarfélaga - Afkomutilkynning vegna árshlutauppgjörs 30. júní 2022
Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga 554 m.kr. á fyrri hluta ársins 2022
Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam 554 milljónum króna á fyrri árshelmingi 2022 samanborið við 248 milljónir króna á sama tímabili árið 2021. Breyting á milli ára skýrist aðallega af aukinni verðbólgu og hækkun vaxta á tímabilinu.
Heildareignir Lánasjóðsins þann 30. júní voru 173 milljarðar króna samanborið við 168 milljarða króna í árslok 2021. Heildarútlán sjóðsins námu 165 milljörðum króna samanborið við 160 milljarða króna í árslok 2021. Ný útlán á fyrstu 6 mánuðum ársins námu 5 milljörðum króna.
Markaðsverðmæti verðbréfaútgáfu á fyrri hluta ársins var 4 milljarðar króna en var 19 milljarðar króna á sama tíma í fyrra. Lánasjóðurinn endurskoðaði útgáfuáætlun sína fyrir árið í maí 2022. Upphafleg útgáfuáætlun gerði ráð fyrir heildarútgáfu að fjárhæð 22 - 28 milljörðum króna fyrir árið 2022. Endurskoðuð útgáfuáætlun gerir ráð fyrir heildarútgáfu að fjárhæð 14 - 18 milljörðum króna.
Eigið fé Lánasjóðsins nam 20,1 milljörðum króna á móti 19,6 milljörðum króna í árslok 2021. Vegið eiginfjárhlutfall Lánasjóðsins er 643% miðað við stöðu útlána þann 30. júní og var 630% í árslok 2021, með fullri mildun samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
Á aðalfundi sjóðsins þann 1. apríl síðastliðinn var ákveðið að greiða ekki arð til hluthafa vegna afkomu ársins 2021 til að styrkja stöðu sjóðsins, viðhalda kaupmætti og tryggja vöxt eigin fjár.
| Rekstur fyrstu 6 mánaða ársins | 1.1.-30.6.22 | 1.1.-30.6.21 | 1.1.-30.6.20 |
| Hreinar vaxtatekjur......................................... | 611 | 341 | 429 |
| Aðrar rekstrartekjur ………............................... | 69 | 24 | 158 |
| Almennur rekstrarkostnaður.......................... | 127 | 117 | 109 |
| Hagnaður tímabilsins................................... | 553 | 248 | 478 |
| Efnahagur í lok tímabils | 30.06.22 | 30.06.21 | 30.06.20 |
| Handbært fé................................................. | 842 | 288 | 1.474 |
| Ríkisbréf og ríkisvíxlar................................... | 6.818 | 3.835 | 3.867 |
| Markaðsverðbréf........................................... | 164 | 2.904 | 2.954 |
| Útlán og kröfur.............................................. | 164.948 | 152.429 | 122.133 |
| Aðrar eignir................................................... | 237 | 51 | 43 |
| Eignir samtals............................................. | 173.009 | 159.506 | 130.471 |
| Verðbréfaútgáfa............................................ | 150.838 | 138.208 | 107.845 |
| Aðrar lántökur............................................... | 1.907 | 1.892 | 3.779 |
| Aðrar skuldir og skuldbindingar.................... | 113 | 97 | 91 |
| Skuldir samtals........................................... | 152.858 | 140.196 | 111.715 |
| Eigið fé........................................................ | 20.151 | 19.310 | 18.756 |
| CAD- hlutfall m/hefðbundinni mildun............... | 56% | 54% | 61% |
| CAD- hlutfall m/fullri mildun............................ | 643% | 336% | 260% |
Framtíðarhorfur
Lánasjóðurinn mun starfa í meginatriðum líkt og undanfarin ár þar sem unnið hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum.
Nánari upplýsingar veitir: Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri, s. 515 4949.
Lánasjóður sveitarfélaga ohf. - Árshlutareikningur 30.06.2022