Starfskjarastefna

Starfskjarastefna Lánasjóðs sveitarfélaga var samþykkt á aðalfundi félagsins þann 1. april 2022

Það er stefna og forgangsatriði hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að laða að afburða starfsfólk og hafa í vinnu til langs tíma. Í því skyni þarf félagið að vera með samkeppnishæf starfskjör. Launakjör æðstu stjórnenda og annarra starfsmanna skulu vera samræmd, sanngjörn og taka m.a. mið af starfskjörum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Starfskjarastefnunni er ætlað að tryggja að hagsmunir stjórnar, æðstu stjórnenda og annarra starfsmanna fari saman við langtímaárangur Lánasjóðsins. Jafnframt skal starfskjarastefnan vera í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og reglna settra samkvæmt þeim. Starfskjarastefnan er til leiðbeiningar fyrir stjórn félagsins, sbr. 79 gr. a) hlutafélagalaga nr. 2/1995, og setur fram meginmarkmið. Ekki má líta svo á að starfskjarastefna þessi veiti tæmandi yfirsýn yfir starfskjör hjá Lánasjóðnum. Lánasjóðurinn veitir ekki starfskjör með afhendingum á hlutum í félaginu eða annars konar greiðslum sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu.

1. Almennt varðandi ákvarðanir um starfkjör

a) Stjórnarmenn skulu fá fasta mánaðarlega greiðslu í samræmi við ákvörðun aðalfundar.

b) Stjórn eða stjórnarformaður fyrir hennar hönd, semur við framkvæmdastjóra um starfskjör hans og skal í því efni horft til ráðningakjara fyrir sambærileg störf.

c) Almenn ráðningakjör starfsmanna eru ákvörðuð af framkvæmdastjóra og skulu þau taka mið af launum fyrir sambærileg störf.

2. Greiðslur til viðbótar við grunnlaun

Til viðbótar við grunnlaun getur Lánasjóður sveitarfélaga ohf. meðal annars greitt eða umbunað æðstu stjórnendum og öðrum starfsmönnum með eftirfarandi hætti:

a) Lífeyrisréttindi: Félagið skal greiða framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð starfsmanna í samræmi við viðeigandi lög og ráðningarsamninga eða kröfur á vinnumarkaði. Félagið getur greitt aukaframlag í lífeyrissjóð samkvæmt nánara samkomulagi við starfsmann. Félagið skal ekki taka á sig lífeyrisskuldbindingar nema slíkt sé áskilið í lögum.

b) Starfslokagreiðslur: Félagið skal gæta þess að starfslokasamningar séu í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og laga um hlutafélög. Almennt skal miða við að aðeins sé samið um gagnkvæman uppsagnarfrest í ráðningasamningum í samræmi við venjur á vinnumarkaði á hverjum tíma, auk þess sem tekið skal tillit til ábyrgðar starfsmanna og annarra viðeigandi þátta.

3. Frávik frá starfskjarastefnu

Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga getur vikið frá starfskjarastefnu þessari en það skal rökstutt í hverju tilviki og bókað í gerðabók stjórnar.