Saga Lánasjóðs sveitarfélaga

Hugmynd að stofnun lánasjóðs fyrir sveitarfélög kom fyrst fram 1951 á bæjarstjórafundi í Reykjavík, en þar var m.a. rætt um nauðsyn á útvegun hagkvæmra lána til meiriháttar framkvæmda sveitarfélaga.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 1955 vaknaði sú hugmynd að stofna sérstakan sveitarfélagabanka sem veitti sveitarfélögum og fyrirtækjum þeirra lán til meiriháttar framkvæmda.

Á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga 1962 var samþykkt tillaga um að kanna grundvöll fyrir starfsemi sveitarfélagabanka og hagkvæmni þess fyrir sveitarfélögin. Hlutverk bankans átti að vera að greiða fyrir fjármálaviðskiptum sveitarfélaga og sýslufélaga m.a. með því að:

  • Veita rekstrarlán til stutts tíma
  • Veita sveitarfélögum eða útvega hagkvæm lán til langs tíma til að leysa fjárfrek viðfangsefni.

Gert var ráð fyrir að bankinn yrði hlutafélag í eigu sveitarfélaga og gæti ávaxtað sjóði þeirra og jafnframt annast alla venjulega bankastarfsemi.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 1963 tilkynnti Gunnar Thoroddsen, þáverandi fjármálaráðherra, að hann hefði skipað nefnd til að gera tillögur um á hvern hátt rekstrar- og stofnlánaþörf sveitarfélaganna verði sem best leyst. Nefndin lauk störfum í lok nóvember 1964 með tillögu að frumvarpi til laga um Lánasjóð sveitarfélaga.

Stofnun og hlutverk

Frumvarp til laga um Lánasjóð sveitarfélaga var lagt fram á Alþingi vorið 1965 og síðan endurbætt frumvarp um sjóðinn vorið 1966. Þann 15. apríl 1966 samþykkti Alþingi lög um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 35/1966.

Samkvæmt lögunum er hlutverk sjóðsins að veita sveitarfélögum stofnlán til nauðsynlegra framkvæmda eða fjárfestinga, veita þeim aðstoð við öflun stofn- og rekstrarlána, annast samninga við lánastofnanir um bætt lánakjör, veita skuldbreytingalán við ákveðnar aðstæður og stuðla að því að sveitarfélög verði traustir og skilvísir lántakendur.

Breytingar á lögum sjóðsins

Gerðar voru breytingar á lögum sjóðsins með lögum nr. 99/1974 þar sem framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var ákveðið 5% og framlag ríkissjóðs 2,5% af heildartekjum jöfnunarsjóðsins. Jafnframt voru skuldabréf, sem sjóðurinn tekur og veitir, undanþegin stimpilgjöldum.

Tekjur

Tekjur sjóðsins hafa verið af vöxtum og framlögum sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og framlagi ríkissjóðs. Veruleg breyting varð á framlögum til sjóðsins með lögum nr. 99/1974 þegar föstu árlegu 15 m.kr. framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ákveðnu árlegu framlagi ríkisins skv. fjárlögum var breytt í ákveðið hlutfall af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en þá hækkuðu framlög jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs úr 23,0 m.kr. árið 1974 í 153,0 m.kr. árið 1975. Framlag jöfnunarsjóðs hefur alltaf verið í samræmi við lög en 1984 hætti ríkið að greiða sinn hlut. Nokkur áranna á undan hafði framlag ríkissjóðs einnig verið skert.

Í lögum nr. 91/1989 um tekjustofna sveitarfélaga var kveðið á um að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til sjóðsins, en það var áður í lögum um Lánasjóðinn. Með lögum nr. 79/1996 var lögum um tekjustofna sveitarfélaga breytt á þann veg að lögbundið framlag jöfnunarsjóðs til Lánasjóðsins árin 1997 til 2001 var skert um 135 millj. kr. á ári. Ennfremur var með lögum nr. 60/2002 lögbundið framlag til Lánasjóðsins árin 2002 til 2004 skert árlega um 200 m.kr. Áðurnefnd skerðing framlaga til Lánasjóðsins rann til framkvæmda hjá sveitarfélögum með 2.000 íbúa og fleiri til þess að ná markmiðum grunnskólalaga um einsetningu grunnskólans. Framlög sveitarfélaga í gegnum jöfnunarsjóðsframlögin hafa verið lánasjóðnum afar mikilvæg og eiga stærstan þátt í styrkri eiginfjárstöðu hans ásamt því að sveitarfélögin hafa reynst traustir lántakendur. Vextir af eigin fé sjóðsins hafa jafnframt átt stóran þátt í því að efla eiginfjárstöðuna, en þrátt fyrir það hafa vaxtakjörin sjóðsins verið mjög hagstæð fyrir sveitarfélögin.

Lántökur

Lántökur sjóðsins fyrstu árin voru hjá Framkvæmdasjóði Íslands eða allt til 1988, en árið 1992 til 2002 voru tekin lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum og árið 1998 hjá íslenskum bönkum. Árið 2003 var farið í skuldabréfaútboð á íslenskum fjármálamarkaði í fyrsta sinn.

Breytt starfsemi og ný lög

Á árinu 2004 vann stjórn Lánasjóðsins að undirbúningi að breytingum á starfsemi lánasjóðsins. Markmið breytinganna var:

  • Efling lánasjóðsins með það að markmiði að lækka fjármagnskostnað sveitarfélaga.
  • Aðlögun á starfsemi hans að almennum rekstrarskilyrðum á fjármálamarkaði.
  • Að æðsta vald í málefnum sjóðsins yrði fært í hendur sveitarfélaga.

Að frumkvæði stjórnarinnar, í samvinnu við félagsmálaráðherra, var unnið frumvarp til nýrra laga um lánasjóðinn sem varð að lögum í árslok 2004 og eru lögin nr. 136/2004. Helstu nýmæli í lögunum eru að:

  1. Lánasjóðurinn er lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og starfar eftir þeim lögum undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Sjóðurinn er í sameiginlegri eigu sveitarfélaga.
  2. Afskiptum ríkisins af lánasjóðnum er lokið nema varðandi slit, sameiningu eða formbreytingu. Slíkar breytingar verða ekki gerðar nema með lögum.
  3. Lánasjóðnum er heimilt að lána fyrirtækjum og stofnunum sem eru alfarið í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs gegn ábyrgð eigenda auk lána til sveitarfélaganna sjálfra.
  4. Framlög úr ríkissjóði til lánasjóðsins falla formlega niður, en þau hafa ekki verið greidd síðan árið 1983.
  5. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til lánasjóðsins falla niður.
  6. Æðsta vald í málefnum lánasjóðsins er í höndum fulltrúa þeirra sem sveitarfélögin kjósa á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga.
  7. Samþykktir lánasjóðsins taka mið að samþykktum hlutafélaga eftir því sem tök eru á.
  8. Stjórn lánasjóðsins setur útlánareglur þannig að þær verða ekki lengur ákveðnar með lögum.

Formbreyting í hlutafélag

Í desember 2006 voru samþykkt á Alþingi ný lög um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Var stofnfundur félagsins haldinn þann 23. mars 2007 og 14. september sama ár fékk hið nýja félag starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem lánafyrirtæki. Að fengnu starfsleyfi yfirtók félagið rekstur Lánasjóðs sveitarfélaga.