Starfsreglur endurskoðunarnefndar

Starfsreglur endurskoðunarnefndar

1. Skipun og hlutverk

Endurskoðunarnefnd er skipuð af stjórn Lánasjóðsins og skal hún starfa í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðunarnefnd skal meðal annars hafa eftirfarandi hlutverk án tillits til ábyrgðar stjórnar, stjórnenda eða annarra á þessu sviði:

1) Eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila.

2) Eftirlit með fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðun ef við á, og áhættustýringu.

3) Eftirlit með endurskoðun ársreiknings sjóðsins.

4) Mat á óhæði endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis og hafa eftirlit með öðrum störfum endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis..

5) Setja fram tillögu til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki í samræmi við ákvæði laga nr. 80/2008 um breytingar á lögum nr. 3/2006 um ársreikninga, með síðari breytingum.

2. Heimildir

Nefndin hefur heimild stjórnar til að:

1) Ráða þá aðstoð sem nefndin telur nauðsynlega til að sinna störfum sínum. Sé kostnaður við slíka ráðgjöf áætlaður umfram 500.000 kr. á ári, skal nefndin hafa samráð við stjórnarformann.

2) Krefjast starfa og athygli starfsmanna Lánasjóðsins.

3) Hafa aðgang að þeim gögnum sem nefndin telur sig þurfa.

4) Fylgjast með og hlutast til um störf ytri og innri endurskoðenda.

Nefndin skal yfirfara og samþykkja reikninga vegna endurskoðunar Lánasjóðsins.

3. Stjórnskipan

Nefndarmenn

Stjórn Lánasjóðsins skal skipa tvo nefndarmenn og formann og skal minnst einn þeirra hafa reynslu af endurskoðun. Að minnsta kosti einn nefndarmanna skal jafnframt vera stjórnarmaður í stjórn sjóðsins. Nefndin skipar sér ritara. Nefndarmenn skulu allir hafa þekkingu á starfsemi Lánasjóðsins svo og almenna þekkingu á fjármálastarfsemi. Einfaldur meirihluti nefndarmanna ræður niðurstöðu mála.

Fundir

Einungis nefndarmenn eiga rétt til setu á fundum nefndarinnar. Nefndin má bjóða hverjum starfsmanna Lánasjóðsins sem þeim finnst við eiga að sitja fundi nefndarinnar. Nefndin skal boða innri og yrti endurskoðendur til fundar við sig eftir því sem þurfa þykir.

Nefndin skal funda í tengslum við uppgjör sjóðsins, tvisvar á ári hið minnsta. Innri og/eða ytri endurskoðendur geta óskað eftir fundi með nefndinni og skal formaður boða fund innan mánaðar frá því að slík beiðni berst. Sama gildir ef nefndarmaður óskar eftir fundi.

Nefndin skal funda um ársuppgjör með ytri endurskoðenda sjóðsins og með innri endurskoðanda vegna árlegrar úttektar.

Nefndin skal leggja fyrir innri og ytri endurskoðanda að skýra nefndinni frá mikilvægum atriðum fyrir rekstur eða starfsemi Lánasjóðsins sem fram koma við störf þeirra. Starfsmenn Lánasjóðsins skulu víkja af fundi á meðan viðkomandi umfjöllun fer fram.

Upplýsingaskyldur nefndarinnar

Nefndin skal minnst árlega gera stjórn skriflega grein fyrir störfum sínum.

Nefndin ber ábyrgð á að upplýsa stjórn um hver þau mál sem geta hafa veruleg áhrif á starfsemi eða afkomu sjóðsins.

Nefndin skal yfirfara skýrslur sem lög eða stjórn kveður á um.

Trúnaður

Nefndarmenn eru bundnir trúnaði um málefni Lánasjóðsins og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu sem nefndarmenn. Trúnaður helst þó nefndarmenn láti af störfum.

4. Endurskoðun starfsreglnanna

Stjórn Lánasjóðsins skal setja starfsreglur endurskoðunarnefndar. Endurskoðunarnefnd er heimilt að leggja til við stjórn breytingar á starfsreglunum ef þörf er á.

Þannig samþykkt á stjórnarfundi þann 29. júní 2022.