Útlánastarfsemi

Samantekt á helstu efnisatriðum í útlánastarfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga ohf.

Megintilgangur Lánasjóðs sveitarfélaga er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða.

Lánasjóðurinn getur eingöngu lánað íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum. Skilyrði fyrir því að hann veiti lán til fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga er að þau séu að öllu leyti í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs sem beri ábyrgð á skuldbindingum þeirra gagnvart sjóðnum. Einnig er það meginkrafa lánasjóðsins að sveitarfélög setji tekjur sínar að veði fyrir lántökum hjá sjóðnum og fyrir ábyrgðum sem það veitir vegna lántöku fyrirtækis eða stofnunar í þess eigu að fullu eða að hluta.

Sjóðurinn hefur einungis heimild til að lána til verkefna sem hafa almenna efnahagslega þýðingu, sem þýðir að verkefnið má ekki vera í samkeppnisrekstri. Dæmi um verkefni sem sjóðurinn hefur lánað til eru:

 • Skólar (leikskólar, grunnskólar, tónlistarskólar).
 • Dvalarheimili.
 • Félagsheimili.
 • Gatnagerð.
 • Hafnarframkvæmdir.
 • Veituframkvæmdir.
 • Sundlaugar og önnur íþróttamannvirki.
 • Ennfremur hefur lánasjóðurinn komið að fjárhagslegri endurskipulagningu sveitarfélaga.

Lán til fyrirtækja og stofnana í eigu fleiri sveitarfélaga takmarkast við ákvæði í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga um ábyrgðir sveitarfélaga sem eru túlkuð þannig að eingöngu sé heimilað að veita ábyrgðir vegna framkvæmda, meiriháttar viðhaldsframkvæmda eða endurfjármögnunar á lánum sem sannanlega hafa verið notuð til slíkra framkvæmda.

Hér fyrir neðan má finna yfirlit yfir útlánastarfsemi lánasjóðsins sem samþykkt var af stjórn sjóðsins þann 22.október 2013:

Útlánastarfsemi Lánasjóðs sveitarfélaga

A. Móttaka lánsumsókna:


Lánsbeiðni sé innan starfsramma LS skv. lögum og reglum.

 1. Umsækjandi sé sveitarfélag eða fyrirtæki/stofnun að fullu í eigu opinberra aðila sem beri ábyrgð á láninu.
 2. Lánsumsókn sé ekki til samkeppnisrekstrar.

Vinna við lánsmat ef ofangreind skilyrði  eru uppfyllt:

 1. Lánastjóri sjóðsins framkvæmir lánsmat þar sem, meðal annars, eftirfarandi upplýsingar koma fram:
 2. Lánsumsókn umsækjanda og til hvers lánið er ætlað.
 3. Samantekt um stöðu sveitarfélagsins (A&B), íbúaþróun, reksturinn undanfarin ár auk upplýsinga um það helsta sem hefur gerst í sveitarfélaginu undanfarin ár.
 4. Rekstur, efnahagur og sjóðstreymi undanfarinna 5 ára m.v. nýjustu aðgengilegu upplýsingar.
 5. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga m.t.t. reksturs, efnahags og sjóðstreymis.
 6. Fjárhagsspá um afkomu og fjárstreymi næstu 5 árin m.t.t. reksturs, efnahags og afborgana lána.
 7. Skuldsetning umsækjanda sem hlutfall af árstekjum í samræmi við viðmið sveitarstjórnarlaga.
 8. Heildarskuldastaða umsækjanda gagnvart LS.
 9. Skuldir við LS sem hlutfall af tekjum viðkomandi sveitarfélags.
 10. Hlutfall skulda viðkomandi við LS sem hlutfall af eigin fé LS.
 11. Mat á hversu háar árlegar afborganir eru til LS næstu þrjú ár sem hlutfall af árstekjum umsækjanda.

Lánastjóri skal móta tillögu, til framkvæmdastjóra/stjórnar eftir því sem við á, um hvort lána skuli viðkomandi umsækjanda.  Tillaga lánastjóra mótast af getu viðkomandi sveitarfélags til að standa undir vöxtum og afborgunum skuldbindinga sinna út frá væntu sjóðstreymi, hversu raunhæfar fjárhags- og fjárfestingaáætlanir eru, íbúaþróun og ekki síst stöðu viðkomandi við sjóðinn út frá áhættusjónarmiðum. Það er framkvæmdastjóra/stjórnar að taka endanlega ákvörðun um lánveitingu.

B. Meðhöndlun lánsumsóknar

Á grundvelli ofangreindra upplýsinga tekur framkvæmdastjóri/stjórn ákvörðun um meðhöndlun viðkomandi lánsumsóknar.

Tillaga að afgreiðslu getur verið

 1. að samþykkja lánveitingu,
 2. að samþykkja hluta af lánveitingu,
 3. að hafna lánveitingu,
 4. að samþykkja að framkvæmdastjóri skoði málið frekar og afgreiðslu frestað.

Í starfsreglum stjórnar segir að lánamál skuli leggja til ákvörðunar stjórnar ef eitthvað af eftirfarandi á við:

 1. ef aðalmaður í stjórn LS er í forsvari fyrir umsækjanda (55. gr. FFTL nr. 161/2002), (þar sem viðkomandi stjórnarmaður fær ekki gögn til umfjöllunar og víkur af fundi við afgreiðslu).
 2. ef skuldastaða umsækjanda er umfram viðmið í lögum um sveitarfélög (64. gr. SFL nr. 138/2011), sjá nánari útfærslu undir liðum b-1, b-2 og b-3.
 3. ef skuldbindingar vegna umsækjanda fara fram úr viðmiði um stórar áhættur (30. gr. FFTL nr. 161/2002).

b-1. Skuldsetning undir 150%

Ef skuldsetning lántakanda er undir 150% tekur framkvæmdastjóri ákvörðun um lánveitingu (nema sbr. lið B – a).  Framkvæmdastjóri byggir ákvörðun sína á fyrirliggjandi lánsmati frá lánastjóra.

b-2. Skuldsetning á bilinu 150%-250%

Þegar skuldsetning sveitarfélags er á bilinu 150%-250% skal leggja lánsbeiðni til ákvörðunar stjórnar.

Matsþættir sem stjórn leggur m.a. til grundvallar ákvörðun sinni:

 • Hæfi umsækjanda til að standa undir skuldbindingum.

 • Áætlað sjóðflæði næstu 10 ára notað til að meta greiðsluhæfi og getu til að standa í skilum.

 • Handbært fé frá rekstri er skoðað sem hlutfall af væntum afborgunum.

 • Skoðað hvort skuldir umsækjanda við sjóðinn séu yfir 100% af árstekjum.

 • Metið hvort árlegar afborganir lána til LS séu umfram 10% af árstekjum viðkomandi.

 • Skoðað hvort vegin eiginfjárbinding sjóðsins gagnvart viðkomandi umsækjanda fari umfram 20% af eigin fé sjóðsins.

Fyrrnefnd áhættusjónarmið eru í samræmi við áhættustýringarreglur sjóðsins.

b-3. Skuldsetning umfram 250%

Að jafnaði skal ekki lána sveitarfélögum með skuldsetningu yfir 250% nema sveitarfélagið hafi gert samning um fjárhagslega endurskipulagningu við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga með aðkomu LS. Við sérstakar aðstæður er stjórn heimilt að samþykkja lán til sveitarfélaga með skuldsetningu yfir 250% ef andvirði lánsins rennur til greiðslu afborgana.

Til leiðbeiningar fyrir lántakendur eru hér yfirlit yfir útborgunarskilyrði sem er yfirlit yfir þau gögn sem þurfa að liggja fyrir áður en útborgun á láni getur farið fram og ennfremur tillaga að bókun í fundargerð sveitarstjórnar annars vegar og hins vegar bókun stjórnar félags eða stofnunar í eigu sveitarfélags, sem taka má af netinu og aðlaga að skilyrðum einstakara lántakenda. Fyrir sveitarstjórnir eru sýndir fjórir valmöguleikar eftir því hvort um er að ræða (i) lántöku, (ii) einfalda ábyrgð vegna lántöku félags í eigu fleiri sveitarfélaga eða (iii) veðsetningu tekna vegna lántöku byggðasamlags.