Lán til sveitarfélaga
Megintilgangur Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. er að tryggja íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða.
Lánasjóðurinn getur eingöngu lánað íslenskum sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum. Skilyrði fyrir því að hann veiti lán til fyrirtækja og stofnana sveitarfélaga er að þau séu að öllu leyti í eigu sveitarfélaga eða sveitarfélaga og ríkissjóðs sem beri ábyrgð á skuldbindingum þeirra gagnvart lánasjóðnum. Einnig er það meginkrafa lánasjóðsins að sveitarfélög setji tekjur sínar að veði fyrir lántökum hjá lánasjónum og fyrir ábyrgðum sem það veitir vegna lántöku fyrirtækis eða stofnunar í þess eigu að fullu eða að hluta.
Lán til sveitarfélaga eru veitt vegna framkvæmda, endurfjármögnunar eða fjárhagslegrar endurskipulagningar samkvæmt nánari reglum sem stjórn lánasjóðsins setur. Lán til fyrirtækja og stofnana í eigu fleiri sveitarfélaga takmarkast við ákvæði í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um ábyrgðir sveitarfélaga sem eru túlkuð þannig að eingöngu sé heimilað að veita ábyrgðir vegna framkvæmda, meiriháttar viðhaldsframkvæmda eða endurfjármögnunar á lánum sem sannanlega hafa verið notuð til slíkra framkvæmda.
Til leiðbeiningar fyrir lántakendur eru hér yfirlit yfir útborgunarskilyrði sem er yfirlit yfir þau gögn sem þurfa að liggja fyrir áður en útborgun á láni getur farið fram og ennfremur tillaga að bókun í fundargerð sveitarstjórnar annars vegar og hins vegar bókun stjórnar félags eða stofnunar í eigu sveitarfélagas, sem taka má af netinu og aðlaga að skilyrðum einstakara lántakenda. Fyrir sveitarstjórnir eru sýndir fjórir valmöguleikar eftir því hvort um er að ræða:
- (i) lántöku,
- (ii) einfalda ábyrgð vegna lántöku félags alfarið í eigu viðkomandi sveitarfélags
- (iii) einfalda ábyrgð vegna lántöku félags í eigu fleiri sveitarfélaga eða
- (iv) veðsetningu tekna vegna lántöku byggðasamlags.