Mildun við eiginfjárútreikninga

21. apr. 2020

Lánasjóður sveitarfélaga ohf. hefur ákveðið að nýta mildunarreglu við eiginfjárútreikninga vegna lögbundinnar sérstöðu sjóðsins. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 geta sveitarfélög veitt sjóðnum veð í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum og vegna ábyrgða sem það veitir honum samkvæmt 1. og 2. mgr. 69.gr. sömu laga.

Þetta felur í sér að Lánasjóðurinn mun við eiginfjárútreikning samkvæmt staðalaðferð nýta sér mildun vegna lána til sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja sem tryggð eru með veði í tekjum sveitarfélaga, samanber 2. gr. reglugerðar nr. 835/2012. Við beitingu mildunar fái umræddar áhættuskuldbindingar, að því marki sem veð er fyrir hendi, áhættuvog eins og íslenska ríkið, þ.e. 0% vegna lána í íslenskum krónum.
Lánasjóðurinn mun einnig beita sömu sjónarmiðum um mildun við útreikning á stórum áhættuskuldbindingum, samanber 1. mgr. 74. gr. reglugerðar nr. 233/2017, þ.e. að líta megi á tryggðan hluta ábyrgðarskuldbindingar sem áhættuskuldbindingu ríkisins.

Fjárhagsstaða Lánasjóðsins er sterk og er vegið eiginfjárhlutfall sjóðsins 70% miðað við ársreikning 31. desember 2019. Eiginfjárkrafa samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 er 12,25%.
Nýting á veittri heimild er til þess fallið að styrkja stöðu og hlutverk Lánasjóðsins enn frekar en til hliðsjónar hefði vegið eiginfjárhlutfall sjóðsins hækkað í 392% miðað við stöðu útlána þann 31. desember 2019.

Viðkomandi breyting á eiginfjárútreikningi mun koma til framkvæmda í árshlutareikningi sjóðsins 30. júní 2020.

Nánari upplýsingar veitir:
Óttar Guðjónsson
Sími: 515 4949
T-póstur: ottar@lanasjodur.is